Gæðakerfi án eftirfylgni er tilgangslaust

Ég er ekki talsmaður boða og banna í viðskiptum, en skýrar leikreglur þurfa alltaf að vera til staðar til að tryggja gæði þeirrar vöru sem verið er að selja hverju sinni. Á Íslandi er gæðaeftirlit í ferðaþjónustu tiltölulega nýtt í samanburði við þá gæðastaðla sem notaðir  eru í Evrópu og Bandaríkjum. Áður en byrjað var að nota gæðastaðla til að skilgreina gæði hótela voru nöfn hótela eins og Ritz og Grand notuð til þess.

Má í því sambandi benda á  Grand Hótel í Stokkhólmi, Grand Hótel í Osló og Grand Hótel í Róm. Nafnið Grand eitt og sér hafði þá ímynd að viðskiptavinurinn taldi sig öruggan um að allar hans væntingar yrðu uppfylltar. Þessi hótel eru öll í kring um tvö hundruð ára gömul, en þau standa enn fyllilega undir nafni hvað varðar gæði bæði í staðalbúnaði og þjónustu.

Sprenging varð í ferðamennsku í hinum vestræna heimi á sjötta áratug síðustu aldar þegar millistéttin fór að að hafa efni á því að ferðast. Fyrir þann tíma er almennt talið að u.þ.b. 10% hverrar þjóðar hefði efni á ferðalögum. Í framhaldi af auknum ferðalögum kom upp ný staða sem hótel og veitingamenn þurftu að bregðast við, en það var að flokka hótel, veitingastaði og jafnvel tjaldstæði með stjörnugjöf.

Í námi mínu við ENALC í Róm (hótelskóli), þar sem undirritaður var við nám í hótelfræðum, kynntist ég fyrst hvernig stjörnugjöf hótela fór fram, en Ítalir notuðu hana aðallega sem grunn fyrir skattlagningu. Stjörnugjöf almennt, byggir eingöngu á staðalbúnaði, en ekki þjónustustigi viðkomandi fyrirtækis.

Það þýðir í raun, að tryggt er, að á þriggja stjörnu hóteli eru herbergin með baði, þar er 24 klukkustunda þjónusta í gestamóttöku, veitingastaður með morgunverði, hádegisverði og kvöldverði ásamt bar og fl. Stjörnugjöfin segir hins vegar ekkert um hvort herbergið er illa þrifið, maturinn vondur og starfsfólkið í gestamóttökunni önugt.

Með hliðsjón af störfum mínum fyrir SVG (nú SAF) í fræðslumálum og með setu í stjórn Norræna hótel- og veitingasambandsins og um tíma sem forseti þess, var eitt af stóru málunum að taka upp stjörnugjöf fyrir hótel á Norðurlöndum. Mikil umræða var um hvað kerfið ætti að mæla, það var síðar niðurstaðan að stjörnugjöfin sem innleidd var á Norðurlöndunum mældi eingöngu staðalbúnað. Þetta kerfi var tekið upp hér árið 2000. Nú er unnið að endurskoðun á þessu kerfi sem nær ekki eingöngu til hótela heldur allra greina ferðaþjónustunnar undir merkjum Vakans.

Árið 1952 opnaði Holiday Inn (HI) sitt fyrsta hótel í Memphis Tennessee. Fljótlega eftir opnun þess stofnaði eigandi Kemmons Wilson, ásamt viðskiptafélaga sínum Wallace E. Johnson, Holiday Inn Corporation sem síðar var HI Worldwide. HI Worldwide er í dag  hluti af InterContinental Hotel Group, sem hefur undir sínum merkjum yfir þrjú þúsund hótel í yfir 100 löndum. Tilgangur félagsins er að selja viðskiptasérleyfi (Franchise) á Holiday Inn nafninu til hóteleigenda eða hótelfélaga. Þetta var í fyrsta skipti sem þetta fyrirkomulag var reynt, en það byggir á ströngum reglum um staðalbúnað, gæðastaðla, öryggisreglur og virkt eftirliti. Þetta er það kerfi sem allar alþjóðlegar hótelkeðjur vinna eftir í dag. Ég kynntist gæðakerfi HI vel þegar ég hóf störf fyrir keðjuna árið 1989. Sem dæmi get ég nefnt að fyrsta árið sem ég starfaði fyrir HI var 150 hótelum í Bandaríkjunum vísað úr keðjunni þar sem þau uppfylltu ekki gæðastaðla HI og gefur það vísbendingu um hversu vel kerfinu er fylgt eftir.

Hvernig stöndumst við samanburð við þessa gæðastaðla? Svörin eru flest á þá leið að reglur sem tryggja gæði í ferðaþjónustu hafa ekki verið vitrar eða felldar úr gildi. Dæmi um það er að iðnlög eru ekki virt. Of oft er horft fram hjá 8. gr laganna þegar rekstrarleyfi er veitt til veitingahúsa. En greinin kveður á um að veitingastaður skuli ávallt rekinn undir forstöðu meistara.

Í sambandi við þetta mál ræddi ég við Ragnar Wessman, fagstjóra hjá Hótel-og matvælaskólanum um hvert sé gildi þess að leggja á sig fjögurra ára nám í iðngrein og hafði hann þetta að segja: ,,Á menntadegi atvinnulífsins 3. mars síðastliðinn hélt Dr. Andreas Schleicher, aðstoðar-framkvæmdastjóri menntamála OECD erindi um samspil menntunar og samkeppnishæfni þjóða. Þar talaði hann m.a. um hugsanlegar ástæður fyrir brottfalli nemenda úr bók- og starfsnámi. Hann benti á þá staðreynd að margir framhaldsskólanemendur virðast sjá lítinn tilgang með námi sínu, sem hann taldi ástæðuna fyrir miklu brottfalli. Þegar ég las síðan frétt á heimasíðu Ferðamálastofu um nýtt gæðakerfi (Vakinn, SÉRTÆK VIÐMIÐ 224) komu áðurnefndar athugasemdir Schleicher upp í huga mér, en gæðakerfið þetta á að innleiða í ár. Í lið sem nefndur er menntun og þjálfun starfsfólks kemur eftirfarandi fram:

  • „Á „a la carte“ veitingastað er yfirmaður í eldhúsi með sveinspróf í matreiðslu. Þetta mun taka gildi 1. janúar 2018.“

  • „Á „a la carte*“ veitingastað er yfirmaður í veitingasal með sveinspróf í framreiðslu. Tekur gildi 1. janúar 2018.“

    Hér er verið að tala um menntun matreiðslu- og framreiðslumanna, en ekki er talið nauðsynlegt að menntað fagfólk starfi á þessum veitingastöðum fyrr en 1. janúar 2018. Sér einhver eitthvað athugavert við þetta? Það þarf sem sagt nokkur ár í viðbót til þess að innleiða að á veitingastaðnum sé fagmenntað fólk. Það er því ekkert skrýtið að ungt fólk sjái lítinn tilgang með fjögurra ára iðnnámi þegar svona er tekið á málum.“

    Ég þakka Ragnari Wessman fyrir hans innlegg í þennan pistil og ætla að ljúka honum á sömu orðum og ég byrjaði, sem eru að Gæðakerfið án eftirfylgni er tilgangslaust. Þetta álit mitt byggði ég á reynslu minni sem Franchise Service Delivery Manager hjá Holiday Inn Worldwide, Europe, Middle East and Afríca. Hluti af starfi mínu sem slíkur var að fylgjast með að hótel á mínu svæði uppfylltu alla gæðastaðla í þjónustu, staðalbúnaði og  að öryggisreglum væri fylgt eftir. Þetta gerði ég með því að heimsækja og taka út hvert hótel minnst tvisvar á ári. Að mati allra alþjóðlegu hótelkeðjanna er eftirfylgni grundvöllurinn fyrir því að gæðakerfið virki.

    Wilhelm Wessman,

    Hótelráðgjafi, leiðsögumaður og framhaldsskólakennari m.m


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Wilhelm W G Wessman

Höfundur

Wilhelm W G Wessman
Wilhelm W G Wessman
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband